5 ár....

Í kvöld eru 5 ár síðan ég steig í land hérna heima eftir dásamlega siglingu með Arnarfellinu frá Varberg í Svíþjóð eftir 25 ára fjarvist...

Fullur klefi af farteski, 3 börn og ég...

Og á þessum 5 árum er ég búin að upplifa meira en ég gerði öll 25 ár í Svíþjóð...


Visst gör det ont när knoppar brister...

That is right world...she found her way back to the mysterious world of blogging...

 

Það er langt síðan ég yfirleitt hugsaði um þetta blogg síðast en í dag rakst ég skyndilega á það, rétt eins og fyrir tilviljun...

En ég trúi ekki á tilviljanir...

Stuttu síðar finn ég mig vera búna að finna fyrstu færsluna hérna...ground zero..og hún kallaði til mín: "lestu mig, lestu mig!"

Svo ég hlýddi kalli hins ritaða máls minnar eigin fortíðar, minnar eigin sögu; og hóf lestur...

...og ég las...og ég las...og ég las..

Ég er um það bil hálfnuð með færslurnar núna og auðvitað var það engin tilviljun að þetta skildi svona óvænt banka upp á...

Í ljósi nú-sins er súrrealískt að líta inn um þennan glugga fortíðarinnar og lesa hvað þessi kona skrifar, hvernig hún tjáir sig...hvernig hennar hversdagsleiki lítur út og þrátt fyrir að kona nú-sins man atburði sem fortíðarkonan lýsir, kannast við tjáninguna; þrátt fyrir það er tilfinning óraunveruleika sterk...

Var ég þessi kona? var þessi kona ég?

Tilfinningin er sterk að þetta hafi bara verið langur draumur, í það minnsta í svo fjarlægri fortíð að það hlýtur að hafa verið í öðru lífi...

 

Finn í hjartanu þakklæti yfir hver ég er í dag, hvernig líf mitt lítur út í þessu núi, mínum núverandi raunveruleika...

Svo áfram les ég ótrauð og ígrunda það sem var, það sem er og það sem hefði verið...auðmjúk, þakklát, les ég áfram og legg þá bita sem ég finn á sinn stað í púsluspili lífs míns, set í samhengi og heildarmyndin kemur betur í ljós.

Ég hef vakið sjálfa mig til umhugsunar...


Ég er komin heim

Þetta líf er ansi merkilegt...ég er búin að lifa því í þó nokkur ár núna en aldrei á mínum forsendum. Meirihluta lífs míns hafa þær ákvarðanir sem ég hef tekið, þessar stóru, sjaldan eða aldrei verið teknar útfrá mínum vilja, mínum draumum, mínum löngunum. Ég hef verið algjörlega á valdi meðvirkninnar og sem dæmi um það eytt ótrúlega mörgum árum í samböndum við menn sem hafa ekkert gefið af sér til mín bara vegna þess að ég hef vorkennt þeim. En betra sein en aldrei, ég er loksins búin að sjá munstrið og brjóta það upp! Ég vogaði mér langt fyrir utan þægindarammann, tók risastóra lífsbreytandi ákvörðun sem var stjórnaðist algjörlega af hjartanu og alveg án þess að setja hagsmuni einhvers annars en mín og barnanna í forgang!

Og viti menn, það var bara ekkert svo vitlaust! Allt er ekki komið á sinn stað enn, það eru stór verkefni sem þarf að takast á við, en mér líður samt eins og ég sé loksins fari að lifa! Það er alveg ótrúlega góð tilfinning!! Ég er komin heim, þar sem ég átti alltaf að vera! 

Ég er í vinnu sem ég elska og þar fann ég mitt kall, minn draum sem ég ætla að elta þegar réttur tími kemur. Ég er í umhverfi þar sem ég get fókuserað á minn bata og farið á fundi reglulega. Ég er búin að öðlast svo margt á svo stuttum tíma bara vegna þess að ég fylgdi loksins hjartanu og setti mig í forgang! Svo er margt sem ekki er komið á sinn stað, en hey, vitiði hvað? ÞETTA REDDAST!! sealedcool


Ég er ekki bifvélavirki heldur!!

Ég fór með bílinn minn í skoðun fyrir dálitlu síðan. Það hefði alveg getað gengið betur, það var sett út á stýriliði, bremsur og að það vantaði perur við númeraplötuna. Fékk mánuð til að laga þetta. Vissi svo sem þetta með stýriliðina, var búin að kaupa nýja en þar sem ég er ekkert einhver snillingur í að gera við bíla og á mann sem veit minna en ég um þetta (og þá er nú mikið sagt) þá varð ég að fá annan mann til að skipta. Hvað varðaði bremsurnar var kvartað yfir að það væri einhver hristingur í þeim, en hann lagaðist þannig að ég hélt ég væri bara góð. Perurnar var barasta ekki hægt að skipta um af því að skrúfurnar eru svo ryðgaðar að við náum þeim ekki úr! Fór með bílinn í endurskoðun í dag og það gekk ekkert áfallalaust heldur. Hann var svosem sáttur við stýriliðina, sem er gott, en bremsudiskarnir eru svo til ónýtir og ég verð að skipta, perurnar var hann ekkert sáttur við, enda var ég ekki búin að skipta, en mér til mikillar undrunar og pirrings ákvað þessi eðaleinstaklingur að finna nýjan galla við bílinn...stýrið er víst ekki nógu fast fyrir hans smekk...en það var ekkert stýrið sem átti að skoða, hann átti bara að skoða þessa punkta sem var fundið að síðast!!! yell Og málið með stýrið er að það hefur alltaf verið þannig að ef maður heldur í það og rykkir fram og tilbaka þá er það pínulítið laust, alveg pínkupons, en það er ekkert sem maður finnur fyrir þegar maður er að keyra, what so ever!! Og það hefur alltaf verið svona en aldrei sett út á það í skoðun áður!!! Og fyrir utan allt þetta var ég að frétta í gær að maður MÁ ekki vera menntaður bifvélavirki til að fá vinnu á skoðunarstöð í Svíþjóð, maður fær bara 2 vikna námskeið hjá þeim, þannig að hvað veit hann svo sem um hvernig stýrið á að vera??? Þetta er svo endalaust hryllilega pirrandi að það sýður á mér!!! yell

Varð bara að koma þessu frá mér, dagurinn á morgun verður örugglega betri, og hey, ég fékk alveg heila viku til að laga þetta allt saman frown


Ég er ekki tölvutæknir!!!

Eins og venjulega þá er ég sein með skólann, ég byrjaði í eðlisfræði og trúfræði fyrir 2 vikum síðan en hef bara ekki haft tíma að setjast við tölvuna og kíkja á þetta. En í gær átti ég loksins lausan dag þannig að ég settist, loggaði inn í skólakerfið og fór inn á eðlisfræðina...eyddi svo 3-4 tímum fyrir utan hlé sem ég tók til að koma mat í fjölskylduna, í að reyna að komast að hvaða forrit ég þarf að hafa til að opna þær skrár sem ég þarf til að læra...

Ég var vægast sagt orðin pirruð á þessu veseni, sendi kennaranum e-póst og spurði hvaða forrit ég ætti að nota, kennarinn er ekki búinn að svara mér enn...langaði að taka tölvuna og henda í hausinn á einhverjum eða setjast út í horn einhversstaðar og grenja!!! 

En þessi ósköp enduðu samt með að mér tókst að finna út úr þessu á endanum, hinsvegar var orðið allt of seint fyrir eitthvað nám þegar þetta var loks komið á hreint! Og í dag er ég með Nínu litlu lasna og á ekki eftir að koma neinu í verk, ég þarf nefnilega einhverra hluta vegna að geta einbeitt mér að náminu til að það gangi eitthvað... tongue-out Svona skrítin er ég bara!

Vinna um helgina, þannig að námið verður bara að bíða til mánudags...oh well, ég reyndi allavega!

Er ennþá að bíða eftir að vorið hætti að vera með vesen, en skilst að það eigi að hlýna eftir helgi þannig að allt gerist þá bara! 

Carpe diem!


Er þetta ekki orðið gott bara?

Það er orðið svo langt síðan ég skrifaði hérna síðast að ég var búin að gleyma bæði notandanafni og passwordi og þurfti að senda beiðni um að minna mig á bæði, það er alveg ansi langt frí finnst mér!!! Elsku stórasystir mín er svona annað slagið að senda frá sér færslur og þá fór mig allt í einu að langa til að vera með :)

 

Mér telst svo til að það séu komin rúm 4 ár síðan síðast, en ég ætla nú ekki að fara að þreyta ykkur hérna með einhverri uppptalningu á hvað er búið að gerast í mínu lífi þessi ár, en ég skal alveg gefa smá update af stöðunni í dag. 

Í dag semsagt þá erum við Arnar búin að vera gift í nærri 3 ár, búum í húsi á lítilli eyju í næst stærsta stöðuvatni Svíþjóðar með 3 yngstu dömunum, hundi, kanínu, fugli og fullt af köttum. Við erum með bílskúr og risastóran garð með jarðarberjum, kirsuberjum, kryddjurtum, rabarbara og brómberjarunna. Ég er komin með bílpróf og eigum við bæði bíl. Við erum bæði að vinna, hann sem yfirmaður í unglingavinnu bæjarins, ég á elliheimili. Ég er líka í skóla, alveg að verða búin með menntaskólann og er líka að taka aukaeiningar sem þarf til að komast í það nám í háskólanum sem ég vil, sem er lífeindafræðingur. Ég er búin með menntaskólann og aukaeiningarnar í desember í ár og haustið 2018 reikna ég með að byrja í háskólanum, loksins!!! Becca mín er flutt að heiman, býr sjálf í íbúð í Jönköping og líkar vel, hún er að standa sig eins og hetja í skólanum og er líka komin með sumarvinnu, mamma hennar er nú alveg slatta stolt af henni!!! 
Nathalie Erna er að verða 13 ára í vetur og er orðin algjör gelgja, Nína Lára er 9 ára og algjör pæja og Lára Esteri er bara eins og hún hefur alltaf verið, algjör spekingur sem er endalaust að pæla í hlutunum, Nietchse hefði ekki komist með tærnar þar sem hún hefur hælana. 

Lífið hérna gengur bara upp og niður eins og hjá öllum öðrum, aðallega erum við bara að bíða eftir að veðrið hérna hætti að vera svona íslenskt og vorið verði meira stöðugt svo ég geti farið út í garð og klárað að hreinsa illgresið úr öllum beðunum, ég nenni nebblega ekki að gera það í kulda og vindi. Enda þarf ég líka að kaupa mér nýja handska fyrir garðvinnuna, það er minna gaman þegar brenninetlurnar brenna mann gegnum handskana :P

Eeeeen þetta er nóg í bili, það situr lítill andvaka spekingur hinum megin við eldhúsborðið og bíður eftir að aðdáendaklúbburinn(ég) veit henni athygli :D

 

Jóka over and out


Pælingar á norðurhjara veraldar...

Jæja, þá er ég búin að vera hérna heima á Fróni í ansi marga daga, nærri tvær vikur, bara alveg on my own...börnin bara í góðu yfirlæti hjá þessum góða manni sem hefur verið höfuðpersóna í nokkrum færslum hérna hjá mér...

Þetta er búin að vera ferð sem hefur vakið til umhugsunar...um meðal annars þetta með að velja gaumgæflega hvaða fólk maður hefur í lífi sínu, og að maður þarf ekkert endilega að vilja hafa fólk í sínu lífi þó maður tengist því blóðsböndum, að maður getur valið að hafa bara fólk í kring um sig sem manni líður vel af að hafa nálægt sér. Og ég hef verið mikið að hugsa um líka hvers virði það er að fá þá að vera nálægt þessu fólki sem maður velur sér...nokkrar stórar ákvarðanir hafa verið teknar í þessari ferð og ég finn frið færast yfir mig og er bara ansi sátt við þessar ákvarðanir.

Ég hef varið miklum tíma með hálfsystur minni sem ég þekkti ekkert allt of mikið fyrir og það er búin að vera yndisleg lífsreynsla, hún er nefnilega alveg jafn yndisleg og ég hélt, sumt fólk er nákvæmlega það sem það sýnist, annað ekki...búin að eiga yndislega daga líka með stórri systur hérna fyrir norðan sem er einmitt líka ein af þessum manneskjum sem ég vel að hafa áfram inni í mínum hring so to speak...
þetta er með öðrum orðum búin að vera þroskandi ferð hingað heim, margir bitar í púslinu sem eru að fara á sinn stað einhvern veginn...þetta er búin að vera jafn mikil innri ferð eins og ytri....

Ég hitti líka yndislegt tengdafólk á Dalvík, fann að mér þótti strax vænt um þetta fólk og hlakka til að fá að kynnast því betur, er nú ekkert að hugleiða að losa mig við manninn minn neitt á næstunni nebblega... 

Á morgun ber ég kistu ömmu minnar til hennar hinstu hvíldar, með því er ákveðnum kafla í lífi mínu lokið og ég er bara nokkuð sátt við það þó það sé líka viss sorg sem því fylgir...en flestum stórum tímamótum í lífi manns fylgir viss sorg, maður syrgir það sem var, það sem maður þekkti, en maður verður samt að halda ótrauður áfram og sætta sig við að allt er breytingum háð, en maður stjórnar sjálfur hvað maður gerir með þessar breytingar, hvernig maður bregst við þeim. 

Ég er bara mjög sátt, og hlakka til að hreinsa til hjá mér og mæta þeim breytingum sem eru að koma, fylgja eftir þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar.

Svaka speki um miðja nótt, ég er hætt þessu í bili, sofið rótt þið þarna úti :) 


Breaking the law...

...is not what I will be doing, en á morgun rætist enn einn draumur...ég er að fara á Judas Priest tónleika annað kvöld!!! Happy AAAAAAAlveg alein!!!! By myself!!! All alone!!! Just me and nobody else!!!! Fer til Linköping á morgun, fer á tónleikana og gisti...já GISTI hjá Jojo!!! EIN!!! Og hver er að gera þennan draum framkvæmanlegan fyrir mig ef ekki elsku maðurinn minn Heart

Oh þetta verður FRÁBÆRT!!! Hef hingað til séð Kim Larsen, Tina Turner og Deep Purple live...og get semsagt bráðum bætt þessum meisturum við...LEGENDS!!!! Spennan er gífurleg!!! :)

Anyway, þarf að fara að skola litinn úr hárinu...must look nice tomorrow hahaha 

 Have a nice one LoL


Hello, my name is Jóhanna and I'm an addict...

Svona, nú er aftur liðinn alltof langur tími á milli blogga hjá mér...þetta er náttúrulega ekki hægt og ég dauðskammast mín, en ég ber við veðurblíðu GrinCool

Ég átti 9 ára edrúafmæli um daginn, 25/3 nánar tiltekið...og vá!!! Níu ár!! Ég bara trúi þessu varla, where did time fly off to?? Mér finnst sko ekki vera 9 ár síðan ég tók mín fyrstu skref í edrúmennskunni... Cool

Ég og maðurinn í lífi mínu fórum í ferðalag í gær og tókum Nínu litlu með okkur Smile Við fengum lánaðan bíl og skruppum á roadtrip, sáum margt og mikið og skemmtilegt, sólin skein allan daginn og veðrið var bara yndislegt langt fram á kvöld. Og mikið yndislega er gaman að ferðast með þessum manni Heart það var mikið flissað, við villtumst oft, fundum réttu leiðina aftur og sáum bara meira skemmtilegt fyrir vikið Smile Við fórum að fallegu stöðuvatni og fórum út og röltum aðeins um þar, fórum upp á topp á fjalli og sáum fallegt útsýni og þetta var bara frábært Heart 

Við eigum eftir að fá þennan bíl lánaðan oftar og fara í fleiri ferðir, það er nokkuð ljóst, skapa okkur nýjar og skemmtilegar minningar saman Smile

Anyways, nenni ekki að skrifa meira í dag, börnin eru í páskafríi sem er ekkert gott fyrir sköpunargáfuna, enda er páskafrí eitthvað sem fjandinn sjálfur hlýtur að hafa fundið upp til að refsa okkur foreldrum fyrir misgjörðir okkar ToungeDevil hahaha

Hafiði það gott allihopa


Sjá vetur karl, vikinn frá...eða hvað?

Ég las á heimasíðu SMHI, sænsku veðurstofunnar, að by definition væri komið vor í allavega hálfu landinu, syðri helmingnum...langar þá að fá útskýringu á snjóbylnum sem brast hérna á í gær, Icelandic style, svo hrikalegum að maður sá, samkvæmt kunningja mínum, vart bílinn fyrir framan sig... Þetta stóð ekki lengi yfir en samt...
Svo væri ég þá líka til í að fá útskýringu á skítakuldanum sem er úti í dag!!! Tounge

Ég er að vísu orðin það sænsk að ég er í kuldaúlpu þangað til hitinn er kominn upp í minst 10 gráður, þá fer ég kanski að hugleiða að renna niður rennilásnum og skilja trefilinn eftir heima, þannig að þegar mér finnst vera skítakuldi úti, þá fer maðurinn minn út í ermalausum bol og stuttbuxum... LoL Hlýtur að vera skoplegt að sjá okkur hjónaleysurnar á vappi, annað í gammosíum undir gallabuxunum, kuldaskóm, þykkri peysu, trefli og kuldajakka og hitt í stuttbuxum og ermalausu...kannski í mesta lagi í þunnum leðurjakka yfir Grin En ég er alveg búin að læra það að ef hann segir að það sé fínasta veður, þá hendi ég mér ofan í skúffu og leita að vettlingunum LoL

Í gær olli yndislegi unglingurinn minn hláturskasti hjá mér sem var svo svaðalegt að ég var komin í gólfið í hláturskrampakasti Smile Þetta byrjaði með að það kemur sms í númer sem hún hefur verið að nota, en er ekki með lengur, svohljóðandi: "Hvar ertu, við byrjuðum fyrir löngu síðan"
Þá rann að sjálfsögðu að mér sá grunur að hún væri ekki alveg að standa sig með að mæta í tíma í skólanum, en vitandi það að það er slökkt á símanum hennar þegar á skóla stendur hugsaði ég með mér að ég næ í skottið á henni seinna í um daginn til að fá útskýringu.
Þegar klukkan er orðin það mikið að mér finnst hún ætti að vera komin heim hringi ég í dömuna. Hún svarar hálfhvíslandi að hún sé á Drama Club (sem ég var búin að steingleyma), að já hún hafi komið of seint, en hún ætli að útskýra það eftir DC. So far so good...
Þegar ég er á leið með næst yngstu til læknis hringir daman aftur og segist hafa komið of seint af því að hún hafi verið niðri á bryggju þegar þau voru með útileikfimi, og dottið í vattnið!!! Og nú sé hún á leið heim, í bíl með fyrrverandi kærustu pabba síns en þær hafi lent í árekstri, ekkert alvarlegt, en þurfi samt að bíða eftir lögreglunni... PinchTounge
Ég hafði náttúrulega engan tíma til að tala við barnið þá, enda á leið til læknis eins og áður sagði, en ég verð að viðurkenna að mig fýsti að vita meira um þetta...
Nú jæja, til læknis með litlu skvísuna, til að fá að vita að það væri bara ekkert að henni...sem er gott! Heart
Þegar ég loks kem heim sest ég með stóru dömunni og á nú að fá þessa útskýringu...þá var þetta þannig að vinkona hennar sagði að maður gæti staðið á svona björgunarhring án þess að hann sykki...OG HÚN TRÚÐI ÞESSU!!!!! LoLLoLLoL
Hún var svo innilega sæt þegar hún var að segja mér frá þessu, og hún var svo innilega meðvituð um hversu heimskulegt þetta hljómaði að það var alveg yndislegt...og góða mamman ég gjörsamlega lyppaðist niður á gólf af hlátri, ég náði varla andanum hahahahaha

Gott að ekki fór illa og ég held/vona að hún hafi lært eitthvað af þessu öllu saman, að minsta kosti hefur hún lært að það er kallt að vera rennandi blautur í mars LoL

En nóg um það, have a nice day, ég ætla að eyða deginum í lærdóm, foreldraviðtal og balett Smile


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband