Ég er ekki bifvélavirki heldur!!

Ég fór með bílinn minn í skoðun fyrir dálitlu síðan. Það hefði alveg getað gengið betur, það var sett út á stýriliði, bremsur og að það vantaði perur við númeraplötuna. Fékk mánuð til að laga þetta. Vissi svo sem þetta með stýriliðina, var búin að kaupa nýja en þar sem ég er ekkert einhver snillingur í að gera við bíla og á mann sem veit minna en ég um þetta (og þá er nú mikið sagt) þá varð ég að fá annan mann til að skipta. Hvað varðaði bremsurnar var kvartað yfir að það væri einhver hristingur í þeim, en hann lagaðist þannig að ég hélt ég væri bara góð. Perurnar var barasta ekki hægt að skipta um af því að skrúfurnar eru svo ryðgaðar að við náum þeim ekki úr! Fór með bílinn í endurskoðun í dag og það gekk ekkert áfallalaust heldur. Hann var svosem sáttur við stýriliðina, sem er gott, en bremsudiskarnir eru svo til ónýtir og ég verð að skipta, perurnar var hann ekkert sáttur við, enda var ég ekki búin að skipta, en mér til mikillar undrunar og pirrings ákvað þessi eðaleinstaklingur að finna nýjan galla við bílinn...stýrið er víst ekki nógu fast fyrir hans smekk...en það var ekkert stýrið sem átti að skoða, hann átti bara að skoða þessa punkta sem var fundið að síðast!!! yell Og málið með stýrið er að það hefur alltaf verið þannig að ef maður heldur í það og rykkir fram og tilbaka þá er það pínulítið laust, alveg pínkupons, en það er ekkert sem maður finnur fyrir þegar maður er að keyra, what so ever!! Og það hefur alltaf verið svona en aldrei sett út á það í skoðun áður!!! Og fyrir utan allt þetta var ég að frétta í gær að maður MÁ ekki vera menntaður bifvélavirki til að fá vinnu á skoðunarstöð í Svíþjóð, maður fær bara 2 vikna námskeið hjá þeim, þannig að hvað veit hann svo sem um hvernig stýrið á að vera??? Þetta er svo endalaust hryllilega pirrandi að það sýður á mér!!! yell

Varð bara að koma þessu frá mér, dagurinn á morgun verður örugglega betri, og hey, ég fékk alveg heila viku til að laga þetta allt saman frown


Ég er ekki tölvutæknir!!!

Eins og venjulega þá er ég sein með skólann, ég byrjaði í eðlisfræði og trúfræði fyrir 2 vikum síðan en hef bara ekki haft tíma að setjast við tölvuna og kíkja á þetta. En í gær átti ég loksins lausan dag þannig að ég settist, loggaði inn í skólakerfið og fór inn á eðlisfræðina...eyddi svo 3-4 tímum fyrir utan hlé sem ég tók til að koma mat í fjölskylduna, í að reyna að komast að hvaða forrit ég þarf að hafa til að opna þær skrár sem ég þarf til að læra...

Ég var vægast sagt orðin pirruð á þessu veseni, sendi kennaranum e-póst og spurði hvaða forrit ég ætti að nota, kennarinn er ekki búinn að svara mér enn...langaði að taka tölvuna og henda í hausinn á einhverjum eða setjast út í horn einhversstaðar og grenja!!! 

En þessi ósköp enduðu samt með að mér tókst að finna út úr þessu á endanum, hinsvegar var orðið allt of seint fyrir eitthvað nám þegar þetta var loks komið á hreint! Og í dag er ég með Nínu litlu lasna og á ekki eftir að koma neinu í verk, ég þarf nefnilega einhverra hluta vegna að geta einbeitt mér að náminu til að það gangi eitthvað... tongue-out Svona skrítin er ég bara!

Vinna um helgina, þannig að námið verður bara að bíða til mánudags...oh well, ég reyndi allavega!

Er ennþá að bíða eftir að vorið hætti að vera með vesen, en skilst að það eigi að hlýna eftir helgi þannig að allt gerist þá bara! 

Carpe diem!


Er þetta ekki orðið gott bara?

Það er orðið svo langt síðan ég skrifaði hérna síðast að ég var búin að gleyma bæði notandanafni og passwordi og þurfti að senda beiðni um að minna mig á bæði, það er alveg ansi langt frí finnst mér!!! Elsku stórasystir mín er svona annað slagið að senda frá sér færslur og þá fór mig allt í einu að langa til að vera með :)

 

Mér telst svo til að það séu komin rúm 4 ár síðan síðast, en ég ætla nú ekki að fara að þreyta ykkur hérna með einhverri uppptalningu á hvað er búið að gerast í mínu lífi þessi ár, en ég skal alveg gefa smá update af stöðunni í dag. 

Í dag semsagt þá erum við Arnar búin að vera gift í nærri 3 ár, búum í húsi á lítilli eyju í næst stærsta stöðuvatni Svíþjóðar með 3 yngstu dömunum, hundi, kanínu, fugli og fullt af köttum. Við erum með bílskúr og risastóran garð með jarðarberjum, kirsuberjum, kryddjurtum, rabarbara og brómberjarunna. Ég er komin með bílpróf og eigum við bæði bíl. Við erum bæði að vinna, hann sem yfirmaður í unglingavinnu bæjarins, ég á elliheimili. Ég er líka í skóla, alveg að verða búin með menntaskólann og er líka að taka aukaeiningar sem þarf til að komast í það nám í háskólanum sem ég vil, sem er lífeindafræðingur. Ég er búin með menntaskólann og aukaeiningarnar í desember í ár og haustið 2018 reikna ég með að byrja í háskólanum, loksins!!! Becca mín er flutt að heiman, býr sjálf í íbúð í Jönköping og líkar vel, hún er að standa sig eins og hetja í skólanum og er líka komin með sumarvinnu, mamma hennar er nú alveg slatta stolt af henni!!! 
Nathalie Erna er að verða 13 ára í vetur og er orðin algjör gelgja, Nína Lára er 9 ára og algjör pæja og Lára Esteri er bara eins og hún hefur alltaf verið, algjör spekingur sem er endalaust að pæla í hlutunum, Nietchse hefði ekki komist með tærnar þar sem hún hefur hælana. 

Lífið hérna gengur bara upp og niður eins og hjá öllum öðrum, aðallega erum við bara að bíða eftir að veðrið hérna hætti að vera svona íslenskt og vorið verði meira stöðugt svo ég geti farið út í garð og klárað að hreinsa illgresið úr öllum beðunum, ég nenni nebblega ekki að gera það í kulda og vindi. Enda þarf ég líka að kaupa mér nýja handska fyrir garðvinnuna, það er minna gaman þegar brenninetlurnar brenna mann gegnum handskana :P

Eeeeen þetta er nóg í bili, það situr lítill andvaka spekingur hinum megin við eldhúsborðið og bíður eftir að aðdáendaklúbburinn(ég) veit henni athygli :D

 

Jóka over and out


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband